Um Martinus
Martinus og köllun hans
Martinus fæddist í smáþorpinu Sindal á Jótlandi í Danmörku, árið 1890. Á þessum tíma var bærinn tiltölulega fátækur. Hann bjó í bernsku sinni við hógværustu kringumstæður, heimili hans var staðsett á fámennu landsvæði þar sem skóglendi er og opnar sléttur.
Hann fæddist utan hjónabands og var ættleiddur af frændfólki sínu. Fósturforeldrar hans voru efnalitlir og áttu mörg börn fyrir svo Martinus þurfti snemma að fara að vinna fyrir sér. Til að byrja með var hann sendur til að hjálpa nokkrum bóndum í sýslunni við það að líta eftir nautgripahjörðum úti til haga á sumrin. Martinus sagði í viðtali við blaðamann nokkurn að þetta einangraða svæði hafi þroskað innra með honum náinn skyldleika við náttúruna, vanið hann við það að vera einn með sínum eigin hugsunum auk þess að hafa alið á meðfæddum trúarlegum þrám.
Næsta hús við bæinn hans var um kílómetra í burtu og á hverjum degi varð hann að ganga í hálftíma til þess að komast í skólann, þar sem honum var kennt nægilegar bókmenntir til þess að vera fær um að leggja saman, skrifa og lesa, en lítið meira. Sýnilegustu ávextir sinnar einföldu og stuttu skólagöngu var að hún gerði honum kleift að lesa Biblíuna, líkt og Martinus komst sjálfur að orði.
Martinus var kvaddur í flotann árið 1913. Hann gengdi aðeins 8 mánaða þjónustu í flotanum og þurfti aldrei að berjast. Árið 1917 flutti hann til Kaupmannahafnar og fékk vinnu hjá stórri mjólkursamsölu. Fram til ársins 1920 starfaði hann við fleiri störf, s.s. við næturvörslu og póstburðarstörf, og fékk loks starf hjá Enigheden, annarri stórri mjólkursamsölu. Þegar þarna var komið við sögu bjó Martinus í Fredriksberg í Kaupmannahöfn.
Þrátt fyrir að flestir vinir hans og samstarfsfólk voru í samböndum eða giftir heillaði hjónabandið Martinus aldrei. Á þessum árum stóð Martinus á tímamótum. Hann var að nálgast þrítugt, hafði aldrei lagt stund á neitt nám og var farinn að leiðast í starfi. Hann þráði breytingar.
Martinus vildi eindregið helga sig starfi á vettvangi mannúðarmála eða þar sem hann gæti orðið meðbræðrum sínum að gagni. Hann hafði meira að segja hugsað sér að gerast trúboði en þar sem hann gat ekki fallist á hugmyndir neinna trúarbragða fauk sú hugmynd út um gluggann.
Í mars 1921 komst Martinus í kynni við ungan mann sem starfaði með honum í mjólkursamsölunni. Sá síðarnefndi kynnti Martinusi fyrir guðspekinni og kom honum í samband við mann að nafni Lars Nibelvang. Þann 21. mars fór Martinus í heimsókn til Lars og fékk lánaða hjá honum bók um guðspekileg málefni sem fjallar um hugleiðslu og endurholdgun.
Þegar heim var komið fór Martinus að lesa sig til um hugleiðslu og reyna fyrir sér aðferðirnar sem tilgreindar voru í fyrrnefndri bók. Í kjölfarið áttu sér stað merkilegir hlutir. Fyrir innri sjónum hans birtist mynd af kristsveru í fjarska sem tók á sig mynd Kristsstyttu Thorvaldsens. Af henni stóð glitrandi bjarmi líkt og af stjörnuljósi. Þessi glitrandi kristsvera færðist nær Martinusi uns hún sameinaðist líkama hans. Um hann greip gleðitilfinning og hann fann að andi sinn eða vitund var ekki lengur takmarkaður við líkamann.
Hann hafði verið vígður inn í nýja tilveru þar sem hann hafði ótakmarkaðann aðgang að „guðdómlegum gagnagrunni“ takmarkalausrar þekkingar og visku. Það var nóg fyrir hann að spyrja sjálfan sig einhverrar spurningar og jafnskjótt kom svarið skýrt fram í vitund hans, óháð spurningunni sem hann spurði. Þannig var hann orðinn eigin uppspretta þekkingar og visku. Hann var orðinn að „mystic“ eða dulhyggjumanni, þ.e. manneskju sem fær vitneskju sína frá innri verund, frá sinni eigin vitund.
Þessa reynslu kallaði hann eldvígsluna eða eldskírnina, er hann nefnir í verkum sínum fæðinguna miklu. Hann lýsir reynslu sinni ítarlega í smábók einni er nefnist Omkring min Missions Fødsel (Upphaf köllunnar minnar). Er öllum þeim sem leikur forvitinn á að vita nákvæmlega hvað Martinus upplifði bent á að lesa þessa bók, en hún hefur verið þýdd yfir á íslensku. Opinberun þessi, ef svo má að orði komast, var alveg hliðstæð opinberunum postulanna og spámanna biblíunnar nema að því leyti að opinberun Martinusar var mun umfangsmeiri og altækari. Höfundur þessarar vefsíðu gengur meira að segja svo langt að segja að umbreyting hans sé svo byltingakennd að opinberanir postulana virðast smávægilegar í samanburði. Martinus taldi þó atburðarás fæðingarinnar miklu ekki mjög mikilvæga heldur afleiðing hennar:
Grundvöllur lesandans verður því ekki þær andlegu skynjanir, sem ég hef hlotið, einar sér, heldur afleiðingarnar, sem þær hafa skapað, því að þær getur hver maður meira eða minna athugað, sem til þess er hæfur siðferðilega, og er óhlutdrægur og frjáls. Þessar afleiðingar eru starfsemi mín í heild. Sköpun raunhæfra stærðfræðilegra alheimsgreininga, fullkomlega óhagganlegra andlegra vísinda, og á grundvelli þeirra myndun nýs hugarfars, nýrrar siðmenningar, þar sem sannur skilningur á lífinu, hárfínum kærleikslögmálum þess, hámark alheimsrökhyggju og heildarniðurstöðu: „Allt er harla gott”, breytist úr draumsýnum í raunhæft líf, áþreifanlegar hverjum þeim manni, sem gæddur er nægilegum þroska, skynsemi og tilfinninga (Tilvitnun úr bók Martinusar "Upphaf Köllunar minnar").
Martinus var nú ekki mjög efnaður maður þegar hann gekk í gegnum þessa reynslu, enda ekki í hálauna vinnu og því átti hann ekki möguleika á því að láta af störfum sínum í mjólkursamlaginu. Ef það hefði ekki verið fyrir trausta bakhjarla, sem styrktu hann fjárhagslega, hefði honum reynst erfitt að helga sig málefnum þeim, sem síðar áttu eftir að verða að ævistarfi hans. Forsjónin stóð á bak við hann og leiddi hann í gegnum þessi miklu umskipti sem minna óneitanlega á umbreytinguna á Jesú Kristi þegar hann var þrítugur en Martinus var einmitt þrjátíu ára þegar hann öðlaðist kosmiska vitund þetta örlagaríka vor árið 1921.
Innsæishæfileikinn var ráðandi í vitund Martinusar og gerði honum það mögulegt að sjá inn í eilífðina og þar birtist tilveran honum í allri sinni kosmisku samsetningu. Sjálf hans var ekki einskorðað við líkamann svo andi hans var jafnt utan við jörðu, sem á henni, en gat á leið sinni um hnetti himnanna, jafnt og jarðarhnöttinn, séð þróunina og tilgang alls lífs. Þessi hæfileiki ásamt öðrum hæfileikum sem hann hafði þróað með sér í gegnum fyrri æviskeið gerði honum kleift að skrifa Þriðja testamentið eða heimsfræðina (d. Kosmologi). Árið 1932, eða ellefu árum eftir vígsluna, kom svo út fyrsta bindið af ritverki sem kom út samtals í sjö bindum, en það var Livets Bog I eða Bók lífsins, fyrsta bindi.