Bók lífsins og hið eilífa líf

Gretar Fells, Martinus og Paul Brunton (Klint, 1952)

Kynntu þér málið

Þessi vefsíða fjallar um kosmísk vísindi og höfundur þeirra er Martinus. Lestu þig til og horfðu á stutt kynningarmyndband um það hér á heimasíðu Martinusar. Yfirlit yfir allar bækur útgefnar á íslensku má finna hér að neðan.

Fylgdu okkur á Facebook

Bókmenntirnar

Verk á Íslensku

Stærri verk sem hafa verið þýdd og útgefin á íslensku:

  • Heimsmyndin Eilífa I og II - Táknmyndabækur sem innihalda fjölda táknmynda og útskýringar.

  • Kosmísk fræðsluerindi - Ýmsir fyrirlestrar eftir Martinus sem færðir hafa verið í letur.

Sjá öll útgefin verk eftir Martinus á Íslensku

Tengsl Martinusar við Ísland

Martinus kom fyrst til Íslands þann 7. september. 1952 í boði Guðspekifélags Íslands og síðan kom hann sex sinnum eftir það í boði vina og kunningja. Hann átti marga vini og kunningja á Íslandi en meðal þeirra voru Vignir Andrésson íþróttakennari og Þórunn kona hans. Vignir var mikill áhugamaður um fræði Martinusar og var nokkurs konar fylgdarmaður hans er hann var hér á landi. Hér verður í stuttu máli rakið hvernig sagan hefur þróast varðandi þýðingar og útgáfu á bókum Martinusar á Íslandi.

Soffía Vilhjálmsdóttir atvinnurekandi var ein af þeim fjölmörgu sem hlýddu á fyrirlestra Martinusar. Fyrirlestrarnir voru iðulega túlkaðir og kom það sér vel því dönskukunnátta Soffíu var fremur lítil. Sökum mikils áhuga á andlegum málum fannst henni að nauðsynlegt væri að þýða fyrirlestrana yfir á íslensku. Hún átti góðan vin Þorstein Halldórsson prentara og ljóðskáld og hafði hún á orði við hann hvort hann væri fáanlegur til að þýða þá. Í fyrstu var Þorsteinn tregur til að gera það því áhugi hans lá allur í Paul Brunton, en hann lét til leiðast og hófst handa við þýðingar á fyrirlestrum Martinusar. Þessir fyrirlestrar hafa verið gefnir út á bókaformi undir nafninu Leiðsögn til lífshamingju og svo síðar í endurútgáfu sem Kosmísk fræðsluerindi I og II. Eftir því sem á leið jókst áhugi Þorsteins á fræðum Martinusar og lagði hann mikla vinnu í þýðingar á bókum hans. Þær bækur sem búið er að gefa út á íslensku auk áðurnefndra bóka eru: Heimsmyndin eilífa I og II, og smábækurnar Upphaf köllunar minnar og Páskar. Einnig eru óútkomnar þýðingar á Bók lífsins I og V, Örlög mannkyns, Spjaldskrá lífsins, Alheimsöflin að baki heimslausnarinnar, Aldahvörf, og Örbirg vitund og konungleg vitund.

Allar þýðingarnar voru unnar á árunum 1959-1967. Soffía Vilhjálmsdóttir fjármagnaði fyrstu þýðingarnar en síðar áttu Vignir Andrésson og Halldóra Samúelsdóttir einnig eftir leggja sitt af mörkum. Ein þeirra sem kom mikið við sögu varðandi útgáfu á bókum Martinusar er Ingibjörg Þorgeirsdóttir sem er þegar þetta er ritað 93 ára gömul. Árin sem Martinus heimsótti landið var hún á Reykjalundi. Hún skrapp stöku sinnum til Reykjavíkur og heimsótti gjarnan vinkonu sína Halldóru Samúelsdóttur á Sjafnargötu 3 en á hennar heimili hafði Martinus oft gistingu þegar hann var hér á ferð. Hún kynntist honum lítillega og fékk strax áhuga á fræðum hans. Ingibjörg er nægjusöm kona og árum saman hefur hún lagt til hliðar hluta af ellilífeyri sínum til útgáfu á bókum Martinusar. Árið 1983 bar hún kostnað af útgáfu Upphaf köllunar minnar og einnig nokkrum árum síðar af endurútgáfu fyrirlestrabókanna.

Þessir aðilar eiga miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt til þýðinga og útgáfu á bókum Martinusar á Íslandi. Til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið hefur verið stofnaður sjóður til að fjármagna útgáfustarfsemina. Útgáfustarfsemin er undir nafninu Miðheimur. Nú þegar hafa verið endurútgefnar bækurnar Heimsmyndin eilífa I og II í samvinnu við Martinus Institut í Kaupmannahöfn. Þessa dagana er verið að undirbúa útgáfu á Bók Lífsins og stefnt er að því að koma fleiri bókum út á næstu árum.